Ferill 607. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1211  —  607. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um hvalveiðar.


     1.      Hefur ráðherra kannað möguleikann á því að afturkalla leyfi Hvals hf. til veiða á langreyði í sumar í ljósi heildarhagsmuna Íslands og lítillar eftirspurnar eftir hvalaafurðum? Telur ráðherra lagalegan grundvöll til þess að afturkalla leyfið og ef svo er, kemur slíkt til greina af hans hálfu?
    Í 1. gr. laga nr. 26/1949, um hvalveiðar, kemur fram að rétt til að stunda hvalveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, til að landa hvalafla sem veiddur sé utan landhelgi eða til að verka slíkan afla í landi eða fiskveiðilandhelgi Íslands hafi þeir einir sem fengið hafi til þess leyfi ráðuneytisins. Slíkt leyfi megi aðeins veita aðilum sem fullnægi skilyrðum um að mega stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Þar sem ekki er að finna sérstaka lagaheimild um afturköllun leyfa í lögum nr. 26/1949, um hvalveiðar, þarf afturköllun útgefinna veiðileyfa að uppfylla skilyrði 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Samkvæmt því ákvæði getur stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar afturköllun er ekki til tjóns fyrir aðila, eða ákvörðun er ógildanleg. Leyfi til hvalveiða er ívilnandi ákvörðun sem er forsenda fyrir atvinnurekstri þess sem slíkt leyfi hefur. Erfitt yrði að sýna fram á að afturköllun leyfis til hvalveiða yrði ekki til tjóns fyrir aðila. Þá er skilyrði til ógildingar á leyfi til hvalveiða ekki fyrir hendi.
    Í 4. gr. laga um hvalveiðar er mælt fyrir um hvaða heimildir ráðherra hefur til að takmarka veiðar þeirra sem leyfi hafa til hvalveiða. Þannig getur ráðherra með reglugerð:
     a.      bannað hvalveiðar á tilteknum svæðum,
     b.      takmarkað veiðar við ákveðinn tíma árs,
     c.      takmarkað heildarveiðimagn, veiðimagn ákveðins fyrirtækis,
     d.      takmarkað veiðibúnað,
     e.      bannað íslenskum ríkisborgurum og þeim sem hafa heimilisfang á Íslandi að taka þátt í hvalveiðum í landhelgi annarra landa ef hvalveiðar eru ekki háðar jafnströngum fyrirmælum og gilda á Íslandi,
     f.      sett hvers konar önnur ákvæði sem talin eru nauðsynleg vegna þátttöku Íslands í alþjóðasamningum um hvalveiðar.
    Með vísan til 4. gr. laganna hefur ráðherra takmarkað rétt þeirra sem leyfi hafa til hvalveiða til að veiða langreyði. Þannig kemur fram í 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 163/1973, um hvalveiðar, sbr. reglugerð nr. 1116/2013, hverjum sé heimilt að veiða hrefnu og langreyði. Þar segir að eingöngu skipum sem sérútbúin séu til veiða á stórhvölum sé heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði árin 2014, 2015, 2016, 2017 og 2018. Þá kemur fram í viðauka við reglugerðina hver sé leyfilegur heildarafli á langreyði árin 2014, 2015, 2016, 2017 og 2018 og skal hann nema þeim fjölda dýra sem kveðið er á um í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna.
    Álitaefnið er því hvort ráðherra hafi heimild, skv. 4. gr. laganna, til að takmarka enn frekar rétt þeirra sem uppfylla núgildandi skilyrði 1. gr. laganna og 1. gr. reglugerðarinnar til veiða á langreyði og þá með þeim hætti að veiðarnar yrðu með öllu óheimilar vegna heildarhagsmuna Íslands og lítillar eftirspurnar eftir hvalafurðum. Í því sambandi kæmi helst f-liður 4. gr. laganna til greina sem heimilar ráðherra að setja hvers konar önnur ákvæði sem talin eru nauðsynleg vegna þátttöku Íslands í alþjóðasamningum um hvalveiðar.
    Árið 2016 leitaði ráðuneytið til ríkislögmanns og óskaði eftir áliti hans í þessum efnum. Í svari ríkislögmanns segir m.a.:
    „Þar sem ekki virðast vera fyrir hendi sérstakar ástæður á grundvelli alþjóðaskuldbindinga sem takmarka ættu veiðar á tilteknum hvalategundum verður að telja hæpið að byggja þær á reglugerð. Verður að skýra b-lið 3. gr. og eftir atvikum f-lið 4. gr. laganna þannig að sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á hverjum tíma sem geri bann við tilteknum tegundum réttmætt.“
    Þá kemur fram í niðurstöðu ríkislögmanns að líta verði svo á að ef sérstakar ástæður séu ekki fyrir hendi verði löggjafinn að taka afstöðu til þess hvort banna eigi veiðar á langreyðum almennt en reglugerð nægi ekki í því efni. Það styðjist einnig við áskilnað 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um að lagafyrirmæli þurfi til ef skerða eigi atvinnufrelsi. Þá bendir hann einnig á að slík lagasetning yrði enn fremur að styðjast við efnisleg rök, almannahagsmuni og að meðalhófs væri gætt. Í því tilliti yrði einnig að hafa hliðsjón af ákvæðum reglugerðar nr. 163/1973, eins og ákvæðum hennar var breytt með reglugerð nr. 1116/2013, þess efnis að leyfi til að stunda hvalveiðar gæti skapað væntingar um að veiðarnar yrðu heimilar til og með 2018. Að lokum bendir hann á að framangreind staðreynd gefi tilefni til að ætla að ekki komi til álita að leggja skyndilega á bann við veiðum á langreyðum á þessu ári nema rík málefnaleg sjónarmið búi þar að baki sem rúmast innan marka laganna eins og hér hefur verið lýst.
    Með vísan til alls þessa eru að mati ráðherra ekki uppi slíkar aðstæður að heimilt sé að lögum að takmarka veiðar á langreyði á þann hátt að þær verði óheimilar á yfirstandandi ári.

     2.      Telur ráðherra ástæðu til að óttast að ákvörðun Hvals hf. geti haft neikvæð áhrif á viðskipti með íslenskar sjávarútvegs- og landbúnaðarvörur? Er ráðherra tilbúinn til að grípa til mótvægisaðgerða vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa á útflutning sjávarútvegs- og landbúnaðarvara?
    Í umræðum um hvalveiðar við Ísland er reglulega vísað til áhrifa hvalveiða á aðrar atvinnugreinar, einkum ferðaþjónustu og sjávarútveg. Árið 2010 gerði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða þar sem m.a. kom fram að þjóðhagslega hagkvæmt teldist að halda hvalveiðum áfram. Slíka niðurstöðu er þó rétt að endurmeta reglulega, sérstaklega þegar miklar breytingar hafa orðið á íslensku atvinnulífi eins og raunin hefur orðið síðan 2010. Á slíka þörf til síðari tíma endurskoðunar var bent í skýrslunni árið 2010.
    Til að skapa betri grundvöll undir umræður um hvalveiðar væri nytsamlegt að hafa nýrra faglegt mat á víðari áhrifum hvalveiða en frá 2010. Því hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óskað eftir því að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skoði þetta mál að nýju og uppfæri skýrslu sína frá 2010. Þá hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra einnig óskað eftir því að Hafrannsóknastofnun geri úttekt á fæðuþörf hvala og vægi þeirra í lífríki sjávar hér við land, þ.m.t. á áhrifum hvala á fiskistofna við Ísland. Þannig getur ákvörðun um framhald hvalveiða tekið tillit til þjóðhagslegs mats sem byggist á aðstæðum árið 2018 frekar en 2010. Áður en niðurstöður þessarar vinnu liggja fyrir er að mati ráðherra hvorki tímabært að draga ályktanir varðandi hugsanleg neikvæð áhrif hvalveiða á viðskipti með íslenskar sjávar- og landbúnaðarvörur né að grípa til mótvægisaðgerða.

     3.      Styður ráðherra að hvalveiðistefna Íslendinga verði endurmetin?
    Stefna Íslands í hvalveiðimálum hefur byggst á því að viðhalda rétti til að nýta hvalastofna við landið með sjálfbærum hætti líkt og aðrar lifandi auðlindir hafsins. Þessi stefna byggist á meginreglunni um sjálfbæra nýtingu á grunni vísindalegrar ráðgjafar, sem er mikilvæg meginregla varðandi bæði umhverfisvernd og nýtingu lifandi auðlinda.
    Í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem Ísland hefur af sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins hefur stefna stjórnvalda verið sú að standa gegn því að grafið verði undan meginreglunni um sjálfbæra nýtingu sem byggð er á vísindalegri ráðgjöf, þ.m.t. með því að gerðar séu sérstakar undantekningar frá meginreglunni varðandi ákveðna flokka dýra svo sem sjávarspendýr.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra telur ekki rétt að hverfa frá þessari meginstefnu Íslands.